Bill Gates tók vel í boð um að koma til Íslands

Gates með íslensku forsetahjónunum í dag.
Gates með íslensku forsetahjónunum í dag.

Bill Gates, stjórnarformaður Microsoft, tók í dag vel í boð Ólafs Ragnars Grímssonar forseta um að koma til Íslands, að því er segir í fréttatilkynningu frá forsetaembættinu. Ólafur átti fund með Gates í Edinborg, þar sem þeir sitja báðir leiðtogaráðstefnu.

Á fundinum lýsti Bill Gates áhuga á að kynna sér nánar möguleika Íslands til að vera tilraunavettvangur fyrir nýjan hugbúnað og þróun upplýsingatækni, einkum í ljósi þess að raforkuframleiðsla Íslendinga væri byggð á hreinni orku.

Hann gerði sér grein fyrir því að smærri ríki hefðu til að bera margvíslega eiginleika sem gerðu þau kjörin til að þjóna slíku hlutverki og árangur Íslendinga í netvæðingu, tölvunotkun og útbreiðslu farsíma væri athyglisverður á heimsvísu.

Lýsti Gates sérstökum áhuga á að kynna sér nýtingu jarðhitans til orkuframleiðslu því fyrirtæki eins og Microsoft og önnur öflug hugbúnaðar- og tæknifyrirtæki þyrftu aðgang að öflugum orkulindum.

Forseti Íslands hvatti Bill Gates til að efla rannsóknar- og þróunarstarf fyrirtækisins á Íslandi. Áhugi Íslendinga á upplýsingatækni og hvers kyns tækninýjungum væri mikill, netvæðing meiri en í flestum öðrum ríkjum. Á Íslandi væri virkur samkeppnismarkaður og greiður aðgangur að gegnsærri stjórnsýslu. Þar að auki væru öflugir háskólar á Íslandi og mikill fjöldi menntaðra vísindamanna og tæknimanna á þessu sviði.

Á fundi forseta og Bill Gates var einnig rætt um mannúðar- og líknarverkefni sem Stofnun Bill Gates og Melindu Gates stendur að víða um veröld, ekki síst á vettvangi heilbrigðismála á Indlandi og í Afríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert