Félagsmenn í 4x4 mótmæla áformum um uppbyggingu Kjalvegar

mbl.is/Sigurður Sigmundsson

Ferðaklúbburinn 4x4 mótmælir harðlega öllum áformum um uppbyggingu Kjalvegar í einkaframkvæmd. Þegar hugmyndir Norðurvegar ehf. komu fyrst fram, fór fram skoðunarkönnun á vefsíðu Ferðaklúbbsins 4x4. Þar var spurt eftirfarandi: Ert þú sáttur/sátt við uppbyggða hálendisvegi með veggjöldum. 86% aðspurðra svöruðu spurningunni neitandi.

Í tilkynningu frá ferðaklúbbnum 4x4 kemur fram að klúbburinn vill einnig vekja athygli á röksemdarfærslu þeirra aðila sem standa að Norðurvegi ehf.

„Ein röksemdin er bætt aðgengi að hálendinu fyrir allan almenning. Því viljum við svara og benda á að á Íslandi eru í dag hátt í fjörutíuþúsund jeppar, auk þess sem Kjalvegur er fær öllum fólksbílum að sumarlagi.

Má því halda fram að núverandi Kjalvegur hefti ekki för neins til þess að njóta Kjalarsvæðisins. Einnig viljum við benda á að styttingu vegarins milli Norðurlands og þéttbýlisins á sunnanverðu landinu má að mestu fá með lagfæringum á þjóðvegi 1.

Vetrarferðamenn hafa einnig margir bent á að uppbyggður og malbikaður Kjalvegur getur verið mjög varasamur vegna þeirra veðurfarsaðstæðna sem þarna ríkja, en líklegt er að hálka, samfara verulega miklum vindi verði mun algengari á þessum vegi en öðrum samgönguæðum landsins.

Má benda á reynslu af Kvíslaveituvegi og syðsta hluta Sprengisandsvegar, sem jeppamenn þekkja vel í vetraraðstæðum og svipar verulega til aðstæðna á Kjalvegi. Algeng er flughálka á malbikaða hlutanum frá Búrfelli norður að Vatnsfelli og svipaðar aðstæður skapast oft á malarvegskaflanum norður með Kvíslarveitum. Þar sem vindstrengir liggja milli jökla líkt og er bæði á Sprengisandssvæðinu og á Kili, magnast vindhæðin og stormur og rok verður meira ríkjandi en annars staðar. Því getur Kjalvegur sem samgönguleið verið mjög varasamur að vetrarlagi.

Ferðaklúbburinn 4x4 mótmælir einnig þeirri sjónmengun og hávaðamengun sem þessar framkvæmdir hafa í för með sér. Vegur af þeirri gerð sem hér er rætt um sviptir hálendið sérkennum sínum og þeirri öræfastemningu sem ferðamenn sækjast eftir. Hálendi landsins hefur mikið gildi fyrir þjóðina og með því að leggja uppbyggða samgönguæð í gegnum eitt helsta hálendissvæðið er verið að spilla verulega þeirri upplifun sem menn sækjast eftir á Kili. Kjölur verður aldrei samur eftir að slík framkvæmd hefur verið heimiluð," að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka