Þrír unglingspiltar, 15-17 ára, eru í haldi hjá lögreglunni í Hafnarfirði grunaðir um að hafa valdið skemmdum á fjölda bíla víðs vegar um bæinn í nótt. Að sögn lögreglunnar er talið að sömu menn hafi verið að verki í öllum tilvikum. Skemmdarverk voru einnig unnin á húsum og vinnutækjum.
Rannsókn málsins stendur enn yfir. Lögreglan telur að á bilinu 20 til 30 bílar hafi verið skemmdir. Ljóst er að öflug áhöld voru notuð við spellvirkin, en m.a. voru rekin göt á bifreiðar og bílrúður.