Efnt til íslenskuverðlauna fyrir reykvísk skólabörn

Menntaráð Reykjavíkurborgar ætlar að efna til íslenskuverðlauna fyrir reykvísk skólabörn. Þeim verður úthlutað árlega, á Degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember. Verndari verðlaunanna er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.

Markmið verðlaunanna er að auka áhuga æskufólks á íslenskri tungu og hvetja það til framfara í tjáningu talaðs máls og ritaðs. Verðlaunin verða veitt nemendum sem hafa tekið framförum og eða náð góðum árangri í íslensku, hvort heldur þeir hafa hana að móðurmáli eða læra hana sem annað tungumál.

Sérhver grunnskóli í Reykjavík getur tilnefnt þrjá nemendur eða nemendahóp til verðlaunanna og fá allir sem tilnefningu hljóta verðlaunagrip. Skólar geta t.d. tilnefnt þá sem sýnt hafa færni, frumleika eða sköpunargleði í að nota tungumálið sem samskiptatæki í hagnýtum eða listrænum tilgangi.

Íslenskuverðlaun reykvískra skólabarna verða veitt í fyrsta sinn á hausti komanda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka