Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, segist vera mjög ánægður með að lækkun virðisaukaskatts á mat- og drykkjarvöru sé að skila sér hjá smásölunni og segir hann það vera í takt við það sem átti að gerast. Hann segir það hinsvegar vonbrigði að veitingahúsin séu ekki að skila virðisaukaskattslækkuninni inn í verðlag á veitingum. Það varpi ákveðnum skugga á lækkun virðisaukaskatts um síðustu mánaðarmót.
Að sögn Árna er lækkunin hjá smásölunni í samræmi við það sem hann hafi haft trú á að þessir aðilar hefðu metnað til.
Segir hann að þetta sýni að líklegt sé að þær lækkanir sem eiga eftir að koma til skila, það er lækkun á vörugjöldum og tollum komi til með að skila sér til neytenda á næstu mánuðum.
Í nýrri mælingu Hagstofu Íslands kemur fram að frá febrúar til mars lækkaði verð á mat og drykkjarvörum um 7,4% (vísitöluáhrif -1,01%) og hefur lækkun virðisaukaskatts á matvælum því skilað sér vel. Áhrif af lækkun vörugjalda og tolla eru hins vegar ekki komin fram. Verð á veitingum lækkaði um 3,2% (-0,15%) en hefði átt að lækka um 8,8% ef lækkun virðisaukaskatts hefði skilað sér að fullu og ekki komið til annarra verðbreytinga, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.
Hinn 1. mars lækkaði virðisaukaskattur af matvælum og fleiri vörum og þjónustu. Á þær vörur sem áður lagðist 14% skattur leggst nú 7% og á það við um flestar matvörur, hitunarkostnað, afnotagjöld, bækur o.fl. Virðisaukaskattur af sætindum og drykkjarvörum öðrum um áfengi og veitingum lækkaði úr 24,5% í 7%. Þá voru vörugjöld afnumin af flestum matvælum og tollar á kjöt lækkaðir.
Hvernig eigi í framhaldinu að taka mark á þessum aðilum
Árni segir að það séu hinsvegar vonbrigði að veitingahúsin eru ekki að skila þessari lækkun.
„Það varpar auðvitað ákveðnum skugga á þetta og ákveðnum skugga á það sem aðilar í ferðaþjónustu hafa verið að segja: að matvælaverð á Íslandi væri það hátt að það skaðaði samkeppnisstöðu okkar að þessu leyti. Að þegar stjórnvöld lækka skatta þá skuli það ekki skila sér hjá þessu sömu aðilum. Þá veltir maður því fyrir sér hvort þetta sé rétt sem þeir hafa verið að halda fram. Eins hvort þetta hafi verið nauðsynlegar aðgerðir af okkar hálfu til að styrkja stöðu þeirra í samkeppni við önnur lönd. Hvernig eigum við í framhaldinu að taka mark á þessum aðilum," segir Árni.
Lækkun vörugjalda og tolla skilar sér á 2-3 mánuðum
Að sögn Árna er ekki hægt að segja nákvæmlega til um hvenær áhrifa af lækkun vörugjalda og tolla fari að skila sér inn í vísitölumælingu Hagstofunnar en það miðast við hvenær birgðir klárast. Segir Árni að hann teldi að það taki um tvo til þrjá mánuði að skila sér inn í verðlagið en að öllum líkindum muni tollalækkanir skila sér síðast.