Um 160 metra breitt snjóflóð féll á veginn um Hrafnseyrarheiði í morgun, rétt eftir að moksturstæki Vegagerðarinnar hafði farið um veginn. Vegurinn var ruddur aftur og er nú fær. Vegagerðin ákvað í gærmorgun að moka ekki veginn vegna snjóflóðahættu.
Þó nokkur skafrenningur var á heiðinni síðdegis á mánudag og fram undir hádegi á þriðjudag. Vind lægði um miðjan daginn en jókst svo aftur síðdegis. Sólarhringsúrkoma á veðurathugunarstöðinni að Hólum frá mánudegi til þriðjudagsmorguns var 10 mm. Að mati staðkunnugra, sem sjá um mokstur á heiðinni, var ákveðið að moka ekki heiðina.
Á vefnum thingeyri.is í dag var sú ákvörðun Vegagerðarinnar, að moka ekki veginn í gær, gagnrýnd en fram kom að forráðamenn skólabarna, sem dvöldu í norðanverðum í Arnarfirði um páskana, handmokuðu í gegnum 20 metra skafl til að koma börnunum þar yfir.
„Þær fullyrðingar, sem birtust á Þingeyrarvefnum í morgun um að engin snjósöfnun hafi verið í fjallinu á mánudag og þriðjudag eru bæði rangar og óábyrgar. Það sýnir snjóflóðið í morgun. Síðustu ár hafa miklar breytingar orðið á hvernig landsmenn, ekki síst Vestfirðingar, umgangast snjóflóðahættusvæði og hvernig reynt er að meta hættu til að auka öryggi íbúanna. Í því ljósi skal ákvörðun Vegagerðarinnar um að moka ekki Hrafnseyrarheiði í gær skoðast“, segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.