Framleiðsla á hátæknibúnaði fyrir álver hefst fljótlega í Fjarðabyggð. Fyrirtæki, sem mun annast viðhaldsþjónustu fyrir Fjarðaál, hyggst nýta þekkingu sína til framleiðslu á slíkum búnaði og tækjum, með útflutning í huga.
Óskar Borg, innkaupastjóri Fjarðaáls, segir að samningar við fyrirtækið séu á lokastigi. Til að annast viðhaldsþjónustu fyrir álver þurfi mikla og fjölbreytta sérþekkingu. Samningur við álverið tryggi fyrirtækinu grunnstarfsemi, en forsvarsmenn þess ætli að nýta þekkingu starfsmanna sinna til framleiðslu og útflutnings hátæknibúnaðar.
Bókakaffi og bílaþvottur
Alcoa gerir þá kröfu til birgja sinna að þeir leggi eitthvað meira af mörkum til samfélagsins eystra en einungis felst í samningi við álverið. Innan skamms verður tilkynnt hvaða fyrirtæki hlýtur samning um rekstur mötuneytis álversins, en það mun jafnframt skuldbinda sig til að reka veitingastað og kaupa hráefni til rekstrar síns á svæðinu.
Penninn/Eymundsson sér álverinu fyrir skrifstofuvörum og mun jafnframt opna svokallað bókakaffi. Esso selur álverinu smurolíu og mun bæði opna bílaþvottastöð og alþjóðlegan skyndibitastað.
Óskar Borg segir skipta miklu máli fyrir samfélagið eystra að sem fjölbreyttust starfsemi spretti í kringum álverið. Alcoa lagði um 80 milljónir í nýtt íþróttahús á Reyðarfirði og afleiddum störfum vegna álversins fjölgar sífellt. Sem eitt nýjasta dæmið má nefna að öryggisfyrirtækið Securitas, sem annast öryggisgæslu fyrir álverið, verður með skrifstofu til frambúðar í sveitarfélaginu, sem gerir almenningi kleift að nýta sér þjónustuna.
Á Reyðarfirði er mikil og hröð uppbygging. Þar spretta upp fyrirtæki og íbúðarhús af öllum stærðum og gerðum. Starfsmenn álversins eru að langstærstum hluta Austfirðingar og sumir fluttir heim á ný eftir áralanga fjarveru.