Þrír karlmenn á þrítugs- og fertugsaldri hafa verið dæmdir í fangelsi, einn í 2 ár, annar í 15 mánuði og sá þriðji í 9 mánuði fyrir að skjóta úr haglabyssu á íbúðarhús í Hafnarfirði á síðasta ári. Sá sem þyngsta dóminn hlaut, Guðni Guillermo Gorozpe, 28 ára gamall, var að auki sakfelldur fyrir líkamsárás, tilraun til brennu, fjársvik og umferðarlagabrot.
Guðni var fundinn sekur um að hafa ráðist inn í kjallaraíbúð í Reykjavík að næturlagi í júní í fyrra og ráðist þar að manni og slegið hann með kúbeini í höfuðið með þeim afleiðingum að hann hlaut sár og skurði.
Þá var annar maður á þrítugsaldri fundinn sekur um að hafa skotið tveimur skotum úr haglabyssu inn um eldhúsglugga og glugga í útidyrahurð í raðhúsi í Hafnarfirði, vitandi af mönnum inni í húsinu. Fóru högl í höfuð og hægri handlegg sama mannsins, og Guðni réðist á fyrr um nóttina. Einnig fóru högl í gluggatjöld, rúðu og veggi gegnt útidyrahurð og eldhúsglugganum sem skotið var inn um. Hinir tveir voru fundir sekir um að hafa átt hlutdeild í árásinni.
Þá var Guðni fundinn sekur um að hafa borið eld að bensíni í glerflösku og kastað logandi flöskunni inn um gat á rúðu í eldhúsglugga sama húss í Hafnarfirði kvöldið eftir skotárásina. Kviknaði eldur í rimlagardínum og pappaspjaldi inni í húsinu en ekki hlaust eldsvoði af þar sem eldurinn slokknaði af sjálfu sér.
Fram kemur í dómnum, að það ligg eitt fyrir um tilefni þess sem þarna gerðist, að Guðni taldi sig eiga óuppgerðar sakir við íbúa í húsinu í Hafnarfirði.