Á morgun verða kynntar niðurstöður sérfræðinga á því hvort og hvernig unnt er að endurbyggja Vesturbúðina á Eyrarbakka, en fjórir áhugamenn á Bakkanum hafa haft forgöngu um að hugmyndin um endurbyggingu verslunarhúsanna væri skoðuð af arkitektum og verkfræðingum með það fyrir augum að í endurbyggðum húsunum yrði rekin einhvers konar þjónusta við ferðamenn.
Fram kemur í tilkynningu að hús dönsku verslunarinnar á Eyrarbakka hafi verið rifin árið 1950 og af og til hafi komið fram hugmyndir um endurbyggingu þeirra frá þeim tíma. Menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar styrkti verkefnið af myndarskap á sl. ári.
Á kynningarfundinum mun Hjörleifur Stefánsson arkitekt gera grein fyrir athugun sinni og fleiri sérfræðinga á hugmyndinni um endurbyggingu Vesturbúðarinnar. Fundurinn fer fram í samkomuhúsinu Stað á Eyrarbakka og hefst hann kl. 20.