Innflytjendur hækka hlutfall vinnufærra

Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði, fjórum sinnum fleiri karlar en konur …
Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði, fjórum sinnum fleiri karlar en konur búa á Reyðarfirði MorgunblaðiðSteinunn Ásmundsdóttir

Íbúum á Íslandi með erlent ríkisfang hefur fjölgað mikið í öllum landshlutum síðastliðin tíu ár. Hlutfall erlendra ríkisrborgara á Íslandi var 2% árið 1996, en var 6% um síðustu áramót. Þetta kemur fram í nýjasta hefti Hagtíðinda. Þá hefur mikill straumur útlendinga til landsins leitt til þess að hlutfall vinnufærra einstaklinga hefur hækkað hér á landi og er nú hærra en í flestum Evrópulöndum. Hverfandi fáir aldraðir einstaklingar með erlent ríkisfang eru búsettir á landi.

Fólksfjölgun á Íslandi var á síðasta ári með því mesta sem mælst hefur. Hinn 31. desember 2006 voru landsmenn 307.672 samanborið við 299.891 ári áður. Þetta jafngildir því að íbúum hafi fjölgað um 2,6% á einu ári. Þetta er mjög mikil fjölgun hvort sem litið er til annarra Evrópulanda eða þróunar á Íslandi undanfarna áratugi. Undanfarinn áratug hefur fólksfjölgun í álfunni í heild verið um 0,2% og í einungis örfáum löndum fjölgar íbúum um meira en 1% á ári.

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað hlutfallslega í öllum landshlutum. Mest er fjölgunin á Austurlandi en rúmlega fjórðungur íbúa þar er nú með erlent ríkisfang. Athygli vekur að karlar eru nú umtalsvert fleiri meðal innflytjenda en konur. Fram til ársins 2004 voru konur mun fleiri en karlar meðal þeirra erlendu ríkisborgara sem komu til landsins. Þetta er mest áberandi á Austurlandi og á Reyðarfirði búa nú fjórum sinnum fleiri karlar en konur.

Flestir þeirra erlendu ríkisborgara sem hér búa eru á þrítugs og fertugsaldri og það vekur líka athygli að börn með erlent ríkisfang eru fá; um það bil 2% allra barna á Íslandi eru með erlent ríkisfang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka