Stærsti vinnustaðurinn af þeim fyrirtækjum sem illa fóru í stórbrunanum í miðborg Reykjavíkur á miðvikudag er skemmtistaðurinn Pravda. Þar störfuðu yfir fimmtíu manns og að sögn forsvarsmanna eru allir án atvinnu í dag. Starfsmannafundur hefur verið boðaður eftir helgi.
Einar J. Ingason, einn eiganda Pravda, segir að starfsmannafundur hafi ekki verið boðaður fyrr því eigendur hafi í raun engin svör fyrir starfsfólkið. „Eins og staðan er núna þá er þetta fólk án atvinnu og það er auðvitað gríðarlegt áfall fyrir það. En við vonum að hægt verði að hefja rekstur í þessu húsi sem fyrst.“
Pravda er vel tryggt – með rekstrarstöðvunartryggingu – þannig að starfsfólkið fær þó laun borguð á meðan leitað er að annarri vinnu.
Eitt þeirra fyrirtækja sem höfðu aðsetur í Lækjargötu 2 var HL adventures sem sérhæfir sig í ævintýraferðum fyrir ferðamenn. Sama óvissa ríkir innan herbúða HL og annarra fyrirtækja en Jón Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri, segist þó ekki gera ráð fyrir að til uppsagna komi.
„Við vorum í því ferli að ráða inn þrjár manneskjur en það breytist eðlilega því við missum af ferðamannatímanum.“
Jón Ólafur segir að fyrirtækið muni tapa tugum milljóna vegna rekstrarstöðvunar en 85% af tekjum fyrirtækisins eruaf þremur mánuðum; júní, júlí og ágúst.
„Gangandi vegfarendur koma við hjá okkur og kaupa fyrir tugi milljóna – það verður ekki.“ Fyrirtækið hefur þegar haft samband við Eik fasteignafélag, eiganda húsnæðisins og óskað eftir áframhaldandi húsnæði.
Fastagestir heimilislausir
Café Rósenberg hefur verið afdrep
margra listhneigðra þjóðfélagsrýna
auk þess sem fjölmargir
tónlistarviðburðir hafa
verið haldnir þar á síðustu misserum.
Fastagestum finnst þeir nú
heimilislausir og hefur Eyvindur
Karlsson blásið til styrktartónleika.
„Þetta er enn á byrjunarstigi en farið verður á fullt um helgina við að koma þessu af stað.“ Markmiðið er að fá sem flesta þeirra tónlistarmanna sem troðið hafa upp á Rósenberg til að spila, eða líkt og Eyvindur orðar það „Þennan Rósenberg-hóp“.
Þórður Pálmason, eigandi Rósenberg, segir að um fimm manns hafi unnið í fullu starfi á staðnum og vonast hann til þess að hægt verði að hefja framkvæmdir á næstunni og jafnvel finna þeim einhverja vinnu við þær. Hann segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi eftir að staðnum var lokað, og hefur fullan hug á að opna á nýjan leik.
Fá flestir önnur störf Veitingastaðinn Café Óperu átti að opna að nýju eftir endurbætur í lok maí og segir Tómas Kristjánsson, framkvæmdastjóri 101 heildar, líklegt að flestir starfsmenn fái störf á öðrum veitingastöðum fyrirtækisins.
Ekki náðist í forsvarsmenn Kebab-hússins né Tourist booking, sem nefnist í daglegu tali Fröken Reykjavík.