Fjölgun erlendra starfsmanna eykur framleiðslugetu þjóðarbúsins

Margir erlendir starfsmenn hafa starfað í mannvirkjagerð hér á landi.
Margir erlendir starfsmenn hafa starfað í mannvirkjagerð hér á landi. Mynd/ SÁ

Flest bendir til að fjölgun erlendra starfsmanna á Íslandi undanfarin ár hafi aukið framleiðslugetu þjóðarbúsins og dregið úr launa-og verðbólguþrýstingi. Sömuleiðis hafi laun ekki lækkað með tilkomu útlendinga á íslenskan vinnumarkað né hafi útlendingar tekið störf frá Íslendingum þrátt fyrir mikla fjölgun þeirra fyrrnefndu.Þetta kom fram hjá sérfræðingum sem fluttu erindi á morgunverðarfundi Samtaka atvinnulífsins í morgun.

Auður heimilanna minni ef erlends vinnuafls hefði ekki notið við

Rannveig Sigurðardóttir, forstöðumaður greiningar-og útgáfudeildar Seðlabanka Íslands, kannaði áhrif þess ef erlends starfsfólks hefði ekki notið við og beitti þjóðhagslíkani sínu til að skoða slíkt fráviksdæmi. Þar var gert ráð fyrir að 2% færri erlendir starfsmenn hefðu starfað hér á landi síðustu ár og áhrif þess en að sömu fjárfestingar stjórnvalda,m.a í stóriðju, hefðu átt sér stað og önnur fjárfesting atvinnuveganna og íbúðafjárfesting hefði aðlagað sig minni mannafla. Þá kemur í ljós að það hefði þýtt 0.5-1,5% meiri verðbólgu, 0,7% hærri stýrivextir árið 2006, einkaneysla 3,5-6 prósentum minni, hagvöxtur hefði verið 1,5%-2,5% minni,kaupmáttur ráðstöfunartekna hefði orðið 2-4,5% minni og auður heimilanna 2-5 prósentum minni.

Laun lækka ekki með tilkomu útlendinga og útlendingar taka ekki störf Íslendinga

Ragnar Árnason,forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA, hélt erindi þar sem hann velti því fyrir sér hvort hægt væri að stöðva frjálsa för launafólks innan EES. Helstu niðurstöður hans eru þær að reynsla af takmörkun á frjálsri för vinnuafls frá átta af tíu nýjum Evrópulöndum hingað til lands sem Ísland nýtti sér frá 1.maí 2004 til 1.maí 2006 hafi verið slæm og hafi skaðað íslenskan vinnumarkað. Ragnar benti á að ranghugmyndir um að laun hafi lækkað með tilkomu útlendinga á íslenskan vinnumarkað séu úr lausu lofti gripnar þar sem laun verkamanna hafi hækkað um 19% frá upphafi árs 2005 til loka árs 2006. Útlendingar hafi ekki heldur tekið störf frá Íslendingum þar sem atvinnuleysi hafi lækkað úr 1,5% niður í 1,35 síðustu 12 mánuði ársins, þrátt fyrir fjölgun erlendra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert