Gagnrýna breytingar á leiðakerfi Strætó

Fulltrúar Samfylkingar og F-lista í hverfisráði Árbæjar gagnrýndu fyrirhugaðar breytingar á leiðakerfi Strætó bs. á fundi ráðsins í dag. Í bókun fulltrúanna segir m.a., að ekki verði unað við að skera eigi á tengingu Árbæjarhverfis, Ártúnsholts, Seláss og Norðlingaholts við marga helstu skóla landsins og stærstu vinnustaði með því að hraðleiðin S5 keyri um Sæbraut í stað Miklubrautar.

Í bókuninni segir, að það hafi kostað margra vikna baráttu nýliðinn vetur að fá lágmarksþjónustu Strætó við Árbæjarhverfi eftir þá órökstuddu ákvörðun að fella niður akstur hraðleiðarinnar S5. Um þessa baráttu hafi verið samstaða í hverfisráði Árbæjar. Eftir að S5 hóf akstur aftur hafi komist á tenging Árbæjarhverfis, Selás og Ártúnsholts við stærstu skóla og vinnustaði borgarinnar, án skiptingar. Sorglegt sé, að nú eigi enn að draga úr þjónustu Strætó í sumar með akstri á aðeins hálftíma fresti. Þetta sé þvert á þá yfirlýstu stefnu að efla almenningssamgöngur og fjölga farþegum.

„Verst er þó að nú á aftur að skera á tengingu Árbæjarhverfis, Ártúnsholts, Seláss og Norðlingaholts við marga helstu skóla landsins og stærstu vinnustaði með því að hraðleiðin S5 keyri um Sæbraut í stað Miklubrautar. Þar með er ekki lengur bein tenging við Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands, Kennaraháskólann, Fjöltækniskólann, Versló, MR, MH og Kvennaskólann, auk Landsspítala-háskólasjúkrahúss. Þá verður þetta að teljast sérstaklega undarlegt í ljósi áforma um gjaldfrjálsar almenningssamgöngur fyrir námsmenn næsta haust. Við þetta verður ekki unað," segir í bókuninni.

Þar er jafnframt lýst furðu yfir því, að samráð hafi ekki verið haft við hverfisráð Árbæjar fyrr um þessar breytingar en þær munu eiga að ganga í gildi næstu helgi. Gangi það gegn skýrum og ítrekuðum óskum hverfisráðsins. „Þetta þýðir að aðeins fáeinir dagar eru nú til að forða því að enn verði teknar slysalegar ákvarðanir um strætisvagnaþjónustu við Árbæinga," segir síðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka