Stemmningsuppboð í Loðmundarfirði

Loðmundarfjörður.
Loðmundarfjörður. mbl.is/Ólafía Herborg
Eftir Evu Bjarnadóttur eva@mbl.is
Í dag var haldið uppboð á jörðinni Stakkahlíð í Loðmundarfirði og var jörðin ásamt gögnum og gæðum slegin hæstbjóðanda á 60 milljónir króna. Býlið Stakkahlíð hefur verið í eyði síðan árið 1967, en þar til síðasta sumar var rekin þar ferðaþjónusta með svefnpokaplássi af ættinni sem átt hefur jörðina undanfarin 111 ár.

Einn fyrrum eigenda jarðarinnar, Stefán Hlíðar Jóhannsson, sagði góða stemmningu hafa verið á uppboðinu og hörkugaman. Um fimmtán manns voru í húsinu, þar á meðal Stefán en móðir hans fæddist í Stakkahlíð. „Fjölskyldan bauð í en var alltaf yfirboðin,“ segir Stefán. „Við verðum að kyngja því. Það hafa allir rétt á því að bjóða,“ bætir hann við hlær að hamaganginum.

Hinn nýi eigandi Stakkahlíðar er Þorsteinn Hjaltested. Til Loðmundarfjarðar er ekki fært nema yfir hásumarið landleiðina og er yfirleitt ekki fært nema fjórhjóladrifnum bílum svo að nýir eigendur geta búist við ró og friði í þessum friðsæla firði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka