Mótmælendur stóriðju verða kærðir

Mótmælendur frá Saving Iceland við Straumsvík
Mótmælendur frá Saving Iceland við Straumsvík mbl.is/Júlíus

Sigurður Þór Ásgeirsson, fjármálastjóri Alcan á Íslandi, segir fyrirtækið ætla að kæra aðila sem brutust inn á vinnusvæði fyrirtækisins í gær og hlekkjuðu sig við búnað Alcan. Málið var fært í hendur lögfræðings fyrirtækisins í morgun og verður í framhaldinu skoðað hverjir verða kærðir og fyrir hvaða sakir.

„Til þess að ná krökkunum út þurfti að skemma búnað fyrirtækisins. Þau höfðu fest sig með keðjum við hlið, slár og vinnuvélar, en þar sem keðjurnar voru utan um háls þeirra var ekki þorandi að saga þær af. Því þurfti að saga búnaðinn,“ segir Sigurður og segir að einnig hafi komið til einhverra tafa í framleiðslu þegar mótmælendur lokuðu hliði við vinnusvæðið.

Um fimmtán manns frá aðgerðasamtökunum Saving Iceland tóku þátt í aðgerðunum og handtók lögreglan 13 manns. Ekki er víst hvort allir þátttakendur í mótmælunum verða kærðir, þar sem þáttur þeirra í aðgerðunum var misalvarlegur. Sumir þeirra brutust inn á svæðið meðan aðrir stóðu fyrir utan að sögn Sigurðar.

Samkvæmt upplýsingum lögreglu var óskað eftir aðstoð hennar vegna málsins um klukkan eitt í gærdag. Lögreglumenn voru sendir strax á staðinn og kom fljótlega í ljós að nokkrir mótmælendur höfðu hlekkjað sig við aðalhlið verksmiðjunnar og eins að nokkrir hefðu farið inn á lokað athafnasvæði Alcan. Þá þótti ljóst að þeir sem fóru inn á svæðið gætu verið í alvarlegri hættu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka