Akureyringurinn sem vann 105 milljónir í Víkingalottóinu í gær hefur gefið sig fram við Íslenska Getspá. „Hann var að fletta blaðinu í hádeginu þegar hann las um óþekktan Akureyring sem hlaut þennan stóra vinning og þá datt honum í hug að athuga miðann sinn," sagði Stefán Pálsson hjá Íslenskri Getspá í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins. Hann sagði að þetta væri jarðbundinn fjölskyldumaður á sjötugsaldri sem tæki fréttunum af stakri ró.
Vinningshafinn vill ekki láta nafns síns getið en hann mun hafa keypt miðann á þriðjudaginn og rekið síðan augun í fregnir af stóra vinningnum í hádeginu í dag.