Hörð gagnrýni á flutningastyrki vegna atvinnuleysis

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, gagnrýndi harðlega á Alþingi í dag tillögur frá stjórn atvinnuleysistryggingarsjóðs um allt að 200 þúsund króna styrki til búferlaflutninga fyrir atvinnulausa. Sagði Kristinn, að með þessu væri verið að senda þau boð til fólkið eigi að pilla sig suður og hætta að vera stjórnvöldum til ama og leiðinda.

„En þetta er ekki það sem fólkið vill," sagði Kristinn bætti við, að stjórnvöld ættu að axla ábyrgð á að byggja upp atvinnulíf á landsbyggðinni en stuðla ekki að því að fólk flytji burtu.

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, sagði að ákvæði um flutningsstyrki vegna atvinnuástands hefði verið í lögum frá 1981. Um væri í raun að ræða endurgreiðsla á útlögðum kostnaði en aðeins átta slíkir styrkir hefðu verið veittir á síðustu 10 árum. Því væri málflutningur stjórnarandstöðunnar um að um væri að ræða hluta af mótvægisaðgerðum og ætti að hafa áhrif á búsetu fólk afar einkennilegur.

Jóhanna sagði, að lögin hefðu verið endurskoðuð á síðasta ári og þess vegna hefði stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs haft til skoðunar hvort hækka ætti upphæð þeirra. Það hefði hins vegar verið óheppilegt að sú skoðun var gerð á sama tíma og verið var að ákveða mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar þorskkvóta.

Jón Bjarnason, þingmaður VG, sagði að það næði út yfir allan þjófabálk þegar farið væri að greiða fólki sérstaka hvatningastyrki til að flytja brott. Bæði Jón og Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, gagnrýndu þá ákvörðun Jóhönnu að lækka hámarkslán Íbúðalánasjóðs. Sagði Birkir að ráðherra ætti að skammast sín fyrir þá ákvörðun.

Jóhanna sagði á móti, að Birkir Jón ætti sjálfur að skammast sín fyrir að eyðileggja félagslega íbúðalánakerfið með lagabreytingu fyrir nokkrum árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert