Nú stendur yfir félagsfundur í Reykjavíkurfélagi Vinstri grænna þar sem fjallað er um myndun nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Svandís Svavarsdóttir, oddviti VG í Reykjavík, fór þar yfir atburðarásina sem leiddi til þess, að nýr meirihluti var myndaður.
Á fundinum var samþykkt ályktun, þar sem fagnað er nýjum meirihluta í Reykjavíkurborg sem myndaður sé til að starfa í anda félagshyggju, öflugrar almannaþjónustu og lýðræðislegra vinnubragða.
Þá lýsti fundurinn sérstakri ánægju með vasklega framgöngu Svandísar Svavarsdóttur, sem hafi staðið vörð um hagsmuni borgarbúa trú stefnu Vinstri grænna um umhverfisvernd, auðlindastefnu og jafnrétti.
Þá er lýst fullum stuðningi við störf borgarstjórnarflokks VG við myndun hins nýja meirihluta.