Tilboðsfrestur vegna lóða í Fossvogi rennur út á föstudag

Frá Sléttuvegi
Frá Sléttuvegi

Tilboðsfrestur vegna lóða sunnan Sléttuvegar í Fossvogi rennur út á föstudag. Í boði eru lóðir fyrir 57 íbúðir við nýjar götur sem heita Skógarvegur og Lautarvegur. Um er að ræða eina fjölbýlishúsalóð (28 íbúðir), 13 lóðir fyrir keðjuhús/raðhús (13 íbúðir) og 8 lóðir fyrir samtengd tvíbýlishús (16 íbúðir). Auglýst er eftir kauptilboðum í byggingarrétt á lóðunum og verður hann seldur hæstbjóðanda.

Í tilkynningu kemur fram að Ágúst Jónsson, skrifstofustjóri Framkvæmdasviðs gerir ráð fyrir annríki í þjónustuveri sviðsins á föstudag. Í ljósi reynslunnar má gera ráð fyrir að bjóðendur komi á síðustu stundu og þar sem ganga þarf frá tilboðstryggingu að upphæð 300 þúsund krónur er afgreiðsla seinlegri en ella. Síðast í svipuðu lóðaútboði var húsinu lokað kl. 16.15, en það tók síðan tvær klukkustundir að afgreiða alla bjóðendur.

Ágúst hvetur fólk til að vera fyrr á ferðinni til að forðast biðraðir. Hann hvetur bjóðendur til að kynna sér útboðsskilmálana vel, en þar eru skýr ákvæði um að tilboð teljist ógilt ef tilboðsblað er ekki rétt útfyllt.

Kauptilboðin verði opnuð í beinu framhaldi af að tilboðsfrestur rennur út í lok dags á föstudag. Öllum bjóðendum er heimilt að vera viðstaddir opnun tilboða. Upplýsingar um bjóðendur og tilboðsverð verða síðan birtar á vef Framkvæmdasviðs.

Útboðsgögn og skilmálar eru á vef Framkvæmdasviðs. Samkvæmt vefteljara hefur vefsíða með útboðsgögnum fyrir Sléttuveg verið skoðuð 3.700 sinnum, samkvæmt frétt frá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka