Í dag hóf forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, formlega átak Slysavarnafélagsins Landsbjargar „Neyðarkall frá björgunarsveitum“. Forseti seldi lyklakippur með björgunarsveitarkonu til gesta Smáralindar í Kópavogi og er óhætt að segja að það hafi tekist vel þar sem hann seldi töluverðan fjölda.
Fram kemur í tilkynningu að átakið muni standa helgina 3. – 5. nóvember, en þá munu björgunarsveitir og slysavarnadeildir Slysavarnafélagsins Landsbjargar selja lyklakippurnar á fjölförnum stöðum um land allt auk þess sem víða verður gengið í hús.
Hagnaður af sölunni mun renna til björgunarsveita, slysavarnadeilda og Slysavarnafélagsins Landsbjargar og verður hann notaður til að efla og styrkja þjálfun björgunarsveitarmanna landsins.