Nýtt fjós gjörónýtt vegna elds

Ný viðbygging við fjós á bænum Stærra Árskógi í Dalvíkurbyggð, er ónýt eftir að kviknaði í þar í dag. Slökkvilið Dalvíkur og Akureyrar eru að störfum og enn er ekki ljóst hvort margra skepnur drápust. Einhverjar sáust hlaupa út í myrkrið. Mikill veðurhamur torveldar slökkvistarf.

Lögreglunni á Dalvík var gert viðvart um eldinn um klukkan fimm. Að sögn varðstjóra í lögreglunni var eldurinn mikill og fljótlega ljóst að húsið er ónýtt. Nú logar í hlöðunni og slökkviliðsmenn einbeita sér að því að ná tökum á eldinum þar.

Allt að 200 gripir eru í fjósinu og segir lögreglan á Akureyri að óvíst sé hvort takist að bjarga þeim. Mikill veðurhamur gerir erfitt um vik við slökkvistarf, en slökkviliðsmenn frá Dalvík og Akureyri berjast við eldinn.

Enn er ekki vitað hvernig kviknaði í mannvirkjunum. Stærri Árskógur er kirkjustaður, skammt sunnan Dalvíkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka