Afar mikið annríki hefur verið hjá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar í gærkvöldi og í nótt þegar óveður geisaði á suðvesturhorni landsins. Á þriðja hundrað björgunarsveitarmanna hefur unnið hörðum höndum við að bjarga verðmætum og forða slysum.
Lausleg talning bendir til þess að yfir 300 hjálparbeiðnir hafi borist björgunarsveitum.
Um klukkan 21 komu fyrstu útköllin þegar björgunarsveitir á Suðurnesjum hófu að sinna beiðnum um aðstoð. Um 30 björgunarsveitarmenn unnu til klukkan 2:30 við að leysa yfir 30 verkefni af ýmsum toga en þá gekk hvöss suðaustanáttin niður. Tæpum tveimur klukkustundum síðar voru sveitirnar kallaðar út aftur þegar byrjaði að hvessa að nýju, nú með S/SV átt. Þegar upp var staðið var fjöldi útkalla um 45.
Upp úr miðnætti fóru að berast hjálparbeiðnir á höfuðborgarsvæðinu og fjölgaði þeim ört. Allur tiltækur mannskapur var kallaður út og þegar veðrið var gengið yfir voru útköll orðin yfir 150 talsins. Verkefnin voru af ýmsum toga; fjúkandi öskutunnur, oltnir gámar, brotnar rúður, laus þök, fallnar girðingar og brotnir staurar. Ástandið var verst í efri byggðum borgarinnar og í Kópavogi.
Veður hefur einnig verið mjög slæmt á Akranesi þar sem Björgunarfélagið fór í 15 útköll, flest vegna þess að þakplötur fuku af húsum og lausamunir um bæinn.
Björgunarsveitir voru einnig kallaðar út á Hellu, Eyrarbakka, Stykkishólmi og Ólafsfirði vegna foks af ýmsu tagi.