Hellisheiði ekki opnuð í kvöld

Samgöngur hafa gengið erfiðlega á suðvesturhorni landsins í dag. Hellisheiði er enn ófær og verður ekki opnuð í kvöld en opið um  Þrengslin. Veðurstofan gerir ráð fyrir suðvestanátt 13-20 m/s og éljagangi í kvöld og hvetur lögreglan fólk til þess að sýna aðgát í umferðinni.

Reykjanesbrautin var lokuð frá kl. sjö í morgun og þar myndaðist mikil umferðarteppa. Byrjað var að hleypa bílum áfram upp úr hádeginu og var vegurinn opnaður aftur um kl. tvö. Enn er mikill skafrenningur á Suðurnesjum. Lögreglan vill koma því á framfæri að vegurinn hafi ekki verið lokaður að ástæðulausu, en margir ökumenn höfðu samband við lögregluna í dag til að kvarta undan lokuninni.

Brattabrekku hefur verið opnuð og verður reynt að halda henni opinni til klukkan níu í kvöld. Þæfingsfærð er á Holtavörðuheiði og sumstaðar í Borgarfirði, jafnvel þungfært í uppsveitum.

Millilandaflug fór úr skorðum og allar flugáætlanir riðluðust vegna slæmra skilyrða í Keflavík. Auk þess gekk bæði farþegum og áhöfnum erfiðlega að komast á flugvöllinn vegna ófærðar á Reykjanesbraut. Ekki var hægt að fljúga til Evrópu í morgun og þá urðu vélar Icelandair, sem komu frá Bandaríkjunum, að lenda á Reykjavíkurflugvelli og á Egilsstöðum. Það var ekki fyrr en nú síðdegis sem Evrópuflugið hófst á ný.

Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa tæplega 20 minniháttar óhöpp verið tilkynnt frá því kl. sjö í morgun. Björgunarsveitarmenn komu m.a. ökumönnum til aðstoðar sem höfðu fest sig á Vesturlandsvegi við Þingvallaveg og á Hellisheiði.

Í Borgarnesi og á Selfossi hefur umferð gengið ágætlega en eitthvað hefur orðið um minniháttar óhöpp





mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka