Rannsóknarnefnd umferðarslysa ítrekar í nýrri skýrslu um banaslys, sem varð á síðsta ári, fyrri ábendingar um skaðsemi ölvunaraksturs. Umrætt slys, sem varð á Þorlákshafnarvegi í ágúst, er rakið til ölvunar ökumanns sem lést í slysinu.
Rannsóknarnefndin áréttar mikilvægi þess að aðstandendur tilkynni til lögreglu ef þeir verða varir við að einhver setjist undir stýri án þess að vera í ástandi til þess. Tafarlaust skuli hringja í Neyðarlínuna, 112, í slíkum tilfellum því að mannslíf séu í húfi.
Þá beinir nefndin því til Umferðarstofu að fjalla um þetta í fræðslu og áróðri til almennings.Rannsóknarnefnd umferðarslysa ítrekar einnig hversu mikilvægt það er að vera spenntur í öryggisbelti þegar ferðast er um í bifreið en ökumaðurinn sem lést í slysinu, var ekki spenntur í belti. Segir nefndin niðurstöður fjölmargra innlendra og erlendra rannsókna um gildi bílbelta eru ótvíræðar: bílbeltanotkun dragi úr líkum á meiðslum og dauðsföllum í umferðinni.