Hreyfing er komin á samningaviðræður Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins að sögn Finnbjörns A. Hermannssonar, formanns Samiðnar. Í gær var haldinn samningafundur og er stefnt að öðrum fundi á mánudaginn kemur.
Skv. upplýsingum Morgunblaðsins verður reynt á næstu dögum að finna sameiginlegar lausnir sem öll aðildarsambönd ASÍ geta sætt sig við. Forystumenn innan ASÍ segja að flest bendi til þess að samflot sé komið á að nýju milli landssambanda og félaga í ASÍ í kjaraviðræðunum en eins og kunnugt er slitnaði upp úr því eftir að ríkisstjórnin hafnaði tillögum verkalýðshreyfingarinnar um breytingar í skattamálum í síðasta mánuði. Talið er að ráðast muni í dag hvort boðað verður til samningafunda yfir helgina en fastlega er reiknað með að viðræðurnar fari á fulla ferð þegar líður á næstu viku.
Finnbjörn sagði að enn væri verið að ræða grundvallaratriði og Samiðn vilji sjá betur heildarþróun kjaraviðræðna áður en hún ákveður hvort hún sé fylgjandi svonefndum „baksýnisspegli“ eða ekki. Með „baksýnisspegli“ er átt við fyrirkomulag sem tryggir þeim sem setið hafa eftir í launaskriðinu hlutfallslega meiri launahækkun en öðrum. Friðbjörn sagði að í ljósi þessa myndmáls væru þeir hjá Samiðn enn að horfa út um framrúðuna. „Við viljum sjá heildarmyndina því við höfum sagt að það sé lítið í baksýnisspeglinum fyrir okkar félaga.“
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er tilboð SA til verkalýðshreyfingarinnar í launamálum metið sem 3,7% hækkun að meðaltali. Áhersla er lögð á að stýra því sem til skiptanna er til þeirra sem eru á lægstu laununum og hafa setið eftir í launaskriði. Í tillögum SA felst að lágmarkslaun fyrir fulla dagvinnu hækki í 145 þús. á mánuði, lægstu kauptaxtar verði færðir að greiddum launum, með 15 þús. kr. greiðslu ofan á taxta nú, 7.500 kr. 1. maí 2009 og 7.500 kr. hækkun 1. mars 2010.
Tillaga um launatryggingu til að bæta laun þeirra sem setið hafa eftir í launaskriði felst í að þeir sem enga hækkun hafa fengið frá áramótunum 2006/07 fái 4% hækkun. Þeir sem hafa fengið minna en 4% sem þeim mismuni nemur en aðrir sem hafa fengið hækkanir umfram 4% fengju ekki hækkun. Ef samið verður til næstu þriggja ára er gert ráð fyrir að frekari hækkanir komi til á tímabilinu vegna mögulegs launaskriðs. SA hefur boðið 2,5% lágmarkshækkun fram í tímann og lýst yfir að sú tala gæti hækkað ef um meira launaskrið verður að ræða á samningstímanum.