Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segist hafa skráð hjá sér tæplega 300 árekstra á vikutímabili, þ.e. frá kl. sjö sl. föstudagsmorgun til dagsins í dag. Þetta gera um 40 árekstra á dag sem lögregla segir vera vel yfir meðaltali.
Lögreglan segir að ætla megi að á bilinu 10 til 20 árekstrar eigi sér stað á höfuðborgarsvæðinu á degi hverjum. Hún tekur það þó fram að ekki er um nein slys á fólki að ræða, heldur fyrst og fremst eignatjón. Tekið er fram að umferðarslysum hafi fækkað mjög að undanförnu.
Mikill snjór og hálka hefur verið á vegum úti. Lögreglan vill brýna fyrir ökumönnum að aka eftir aðstæðum svo koma megi í veg fyrir umferðaróhöpp.