13 greindust með HIV

13 einstaklingar greindust með HIV-smit á Íslandi á síðasta ári.
13 einstaklingar greindust með HIV-smit á Íslandi á síðasta ári. Árvakur/Golli

Á síðasta ári greindust 13 einstaklingar með HIV-smit á Íslandi. Líklegt var talið að smit tengdist fíkniefnaneyslu í æð í sex tilvikum og var jafnvel talið að um hópsýkingu gæti verið að ræða. Í ljós hefur komið að einungis tveir einstaklingar sem sprautuðu sig reyndust vera með sama veirustofn og því ólíklegt að um eiginlega hópsýkingu hafi verið að ræða meðal fíkniefnaneytenda.

Þetta kemur fram í farsóttarfréttum landlæknisembættisins. Þar kemur fram að í fjórum tilvikum af 13 var smit talið tengjast kynmökum gagnkynhneigðra og í þremur tilvikum kynmökum samkynhneigðra. Af þeim sem greindust á árinu voru sjö konur en þetta er í fyrsta sinn sem fleiri konur en karlar greinast með HIV-smit á Íslandi.

Búast má við stóraukinni útbreiðslu HIV á Íslandi

„Áfram verður fylgst náið með útbreiðslu HIV-smits meðal fíkniefnaneytenda því að nái HIV-smit fótfestu í þessum áhættuhópi má búast við stóraukinni útbreiðslu sjúkdómsins hér á landi," segir í farsóttarfréttum.

Óvenjumargir smitaðir af lifrarbólgu B

Óvenjumargir greindust með lifrarbólgu B á síðasta ári á Íslandi eða 45. Um helmingur þeirra voru innflytjendur og vitað var um átta sem höfðu sprautað sig með fíkniefnum, samkvæmt farsóttarfréttum.

„Síðast gekk yfir faraldur meðal fíkniefnaneytenda á árunum 1989-1991. Mikilvægt er að bjóða fíkniefnaneytendum, sem ekki hafa smitast af lifrarbólgu B, bólusetningu gegn sjúkdómnum til að koma í veg fyrir nýjan faraldur í þessum hópi," segir í farsóttarfréttum landlæknisembættisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka