Þrír nemendur í Háskólanum á Bifröst voru reknir úr skóla í gær fyrir fíkniefnamisferli. Lögreglan í Borgarnesi lagði hald á lítilræði af kókaíni, amfetamíni og kannabisefnum í íbúðum þeirra á skólasvæðinu á fimmtudagskvöld.
Mál tveggja aðila voru afgreidd á staðnum en sá þriðji var færður á lögreglustöð vegna gruns um akstur bíls undir áhrifum fíkniefna. Aðgerðin var umfangsmikil, því auk lögreglunnar í Borgarnesi og Dölum, var vopnuð sérsveit ríkislögreglustjóra ásamt fíkniefnadeild LRH og tollgæslunni í Reykjavík. Komu viðbragðsaðilar með þrjú hundateymi á staðinn. Að sögn lögreglunnar í Borgarnesi var talið hugsanlegt að skotvopn væri að finna í íbúð eins hinna grunuðu.
Um er að ræða nemendur sem hafa verið tiltölulega skamman tíma í skólanum, að sögn Ágústs Einarssonar rektors. Í hópnum eru tveir karlar og ein kona og voru öll rekin úr skóla daginn eftir húsleitina sem gerð var í samstarfi skólayfirvalda og lögreglunnar.
Að sögn Ágústs Einarssonar rektors verða fíkniefnamál ekki liðin í skólanum og því var tekið hart á málinu.