SFR vill sömu laun fyrir sambærileg störf

Ein aðalkrafan af hendi Stéttarfélags í almannaþjónustu (SFR) í komandi kjarasamningum við ríkið er að greidd verði sömu laun fyrir sambærileg störf hjá ríki og á almennum markaði. Að sögn Árna Stefáns Jónssonar, formanns SFR, er hér um nýmæli að ræða. Spurður um ástæðu kröfunnar segir Árni Stefán sameiginlega launakönnun SFR og VR sem gerð var fyrir rétt rúmu ári hafa leitt í ljós að 20-39% launamunur væri á sambærilegum störfum hjá ríkinu og á almennum markaði.

„Hingað til hefur því verið haldið fram að ríkisstarfsmenn þyrftu að sætta sig við lægri laun af því að þeir væru með svo mun meiri og betri réttindi,“ segir Árni Stefán og bendir á að þar hafi menn annars vegar verið að horfa til lífeyrisréttinda og hins vegar veikindaréttinda og trygginga. „Lífeyrisréttindin eru vissulega betri en ríkið greiðir 11,5% inn í lífeyrissjóðs starfsmanns á móti 8% hjá vinnuveitendum á almennum markaði.

Efnahagsólgan hafði ekki áhrif á kröfugerðina

Önnur réttindi eru hins vegar ekki lengur betri hjá ríkisstarfsmönnum vegna þess að sjúkrasjóðirnir hjá stéttarfélögum á almennum markaði eru orðnir það sterkir og fá miklu meira inn í sjúkrasjóðina en við. Þeir fá 1% af heildarlaunum en við fáum aðeins 0,37%.“

Aðspurður segir Árni Stefán nýlegar sviptingar í efnahagslífinu ekki hafa haft nein marktæk áhrif á kröfugerð SFR. Spurður hvort komið hafi til álita að semja á svipuðum nótum og í nýlegum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði svarar Árni Stefán því neitandi og bendir á að eigi stéttarfélög að vera í samfloti í einhvers konar þjóðarsátt, verði slíkt samkomulag að liggja fyrir fyrirfram, ekki gangi að einn aðili semji fyrst og krefjist þess síðan að aðrir semji á sömu nótum. Aðspurður segir Árni Stefán ljóst að kröfugerð SFR innihaldi víðtækari kröfur en það sem fékkst samþykkt í samningum á almennum vinnumarkaði.

Fyrsti fundur samninganefnda SFR og ríkisins fór fram sl. mánudag og næsti fundur er boðaður mánudaginn 14. apríl. Núverandi samningur rennur út 1. maí.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka