Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður VG, kvartaði yfir því á Alþingi í dag, að Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, hefði ekki verið viðstaddur óundirbúinn fyrirspurnartíma en búið var að tilkynna að ráðherrann yrði viðstaddur. Utandagskrárumræða hefur verið boðuð á Alþingi klukkan 15 um málefni Landspítalans.
Kolbrún sagði að þingmenn VG hefðu ætlað að beina fyrirspurnum til ráðherrans. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem sat í forsetastól þingsins, sagði að þau boð hefðu borist frá heilbrigðisráðuneytinu að ráðherrann hefði forfallast.
Kolbrún sagði, að breyting á þingskaparlögum hefði haft það í för með sér að ráðherrar þyrftu ekki að vera jafn mikið í þinginu eins og áður. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, sagði hins vegar að þinginu hefði verið gefið mun meira vægi með þingskapalagabreytingunum, sem allir flokkar stóðu að nema VG.