Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að verið sé að vinna að breytingum á „eftirlaunalögunum“ svokölluðu í forsætisráðuneytinu. Hann segir að þar sé einkum horft til þess að breyta þeim á þann hátt að ekki sé hægt að að þiggja samtímis laun og eftirlaun hjá hinu opinbera.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra lýsti því yfir í kvöldfréttum Sjónvarps á sunnudag að hún vildi gera sömu breytingu og Geir talar um auk þess að færa eftirlaunaaldurinn hjá ráðherrum og þingmönnum nær því sem almennt gerist.
„Það þarf bara að vera meirihluti á Alþingi. En þegar stutt lifir af þingtímanum og ef menn ætla sér að leggja stein í götu svona máls þá getur verið erfitt að koma því í gegn,“ segir Geir aðspurður um það hvort víðtæk samstaða allra stjórnmálaflokka sé forsenda fyrir framgöngu málsins. „Ef menn eru sammála um að breyta þessu atriði þá á það ekki að vera neitt flókið, það er að segja varðandi þessar tvöföldu greiðslur,“ bætir hann við.
Formenn stjórnarandstöðuflokkanna segja að ekki hafi verið haft samband við sig vegna málsins. Þeir segjast allir vera tilbúnir að taka á málinu, þó að þeir telji að það vera heldur seint á ferðinni og að betra væri að fara í málið í góðu tómi og fyrir opnum tjöldum.