Veðurstofan hefur sent frá sér kort af upptökum jarðskjálftanna í Ölfusi á fimmtudag. Áætluð brotalengd meginskjálftans, sem varð klukkan 15:45 og mældist 6,3 stig á Richter, er um 14 km.
Gunnar B. Gunnarsson hjá Veðurstofunni segir, að það sé orðið nokkuð samdóma álit að skjálftinn hafi verið af þessari stærð. Nánast stöðugir eftirskjálftar hafa verið á sprungusvæðinu í dag. Gunnar segir, að gera megi ráð fyrir áframhaldandi eftirskjálftum á svæðinu og að sumir kippanna geti orðið yfir 3 stig á Richter.
Gunnar segir, að hreyfingin um misgengið sé hægrihandar sniðgengishreyfing þannig að bakkinn vestan megin við misgengið fer til norðurs en bakkinn austan megin til suðurs. Þetta er í samræmi við eðli Suðurlandsskjálfta.
Eftirskjálftavirknin suðvestan og norðaustan við meginmisgengið er í samræmi við útreiknaðar spennubreytingar vegna meginskjálfans.