Heyskapur gæti orðið þrjátíu prósentum dýrari í sumar en í fyrrasumar. Þetta er mat Gunnars Guðmundssonar sviðsstjóra hjá ráðgjafarsviði Bændasamtakanna. Ástæður kostnaðaraukningarinnar eru fyrst og fremst verðhækkanir á aðföngum, einkum áburði, olíu og rúlluplasti.
Gunnar segir að erfitt sé að meta nákvæmlega hvernig hækkanir á aðföngum snerti hvert bú fyrir sig. „Þær tölur sem við erum að rýna í eru engan veginn endanlegar en við áætlum að verðhækkun á áburði á milli ára sé nálægt sjötíu prósent. Hækkun á olíu teljum við að sé nálægt fimmtíu prósentum. Varðandi rúlluplastið er erfiðara að spá en við teljum þó að það gæti orðið á milli 25 og 30 prósentum dýrara í ár heldur en í fyrra.“
Gunnar leggur áherslu á að kostnaðaraukningin komi misjafnlega við bændur. „Ef við reynum hins vegar að miða við meðalkúabú þá gætu þessir breytilegu kostnaðarþættir sem við köllum orðið allt að þrjátíu prósent dýrari í ár heldur en í fyrra. Þá er auðvitað verið að miða við óbreytt ástand frá fyrra ári. Bændur eru þó væntanlega byrjaðir að gera allar þær ráðstafanir sem hægt er til að draga úr kostnaði, það hlýtur bara að vera.“