Vagnstjórar Strætó ósáttir

Vagnstjórar Strætó bs. eru ósáttir við samskiptin við framkvæmdastjórann.
Vagnstjórar Strætó bs. eru ósáttir við samskiptin við framkvæmdastjórann. mbl.is/Sverrir

Mikil óánægja virðist vera meðal vagnstjóra hjá Strætó bs. Segjast þeir vera ósáttir við óeðlileg samskipti við framkvæmdastjórann og eru trúnaðarmenn vagnstjóra búnir að boða Ármann Kr. Ólafsson stjórnarformann Strætó bs. á opinn fund á Hlemmi í Reykjavík.

Jóhannes Gunnarsson sem var nýverið sagt upp störfum hjá Strætó segir að vagnstjórar sem kjósendur og skattgreiðendur vilji veita Ármanni skriflega áminningu þar sem Einar Jónsson framkvæmdastjóri starfi með fulltingi hans.

Jóhannes sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að sér hafi nýlega verið sagt upp störfum þar sem störf hans sem trúnaðarmaður starfsmanna hafi verið stjórnendum þyrnir í auga.

Hér fyrir neðan er bréfið sem vagnstjórar sendu fjölmiðlum:

Erum í mótmælaham í dag vegna margra mánaða "ástands" hjá Strætó. Okkur
langar að spyrja ykkur hvort þið vilduð fjalla um fyrir okkur að
starfsmenn Strætó ætla að hittast við "hestana" á Hlemmi kl. 16:00 í dag.
Við höfum boðað Ármann Kr. Ólafsson bæjarfulltrúa í
Kópavogi/alþingismann/stjórnarformann Strætó að koma og taka við
skriflegri áminningu frá okkur sem skattgreiðendur og þar með eignaraðilar
í Strætó bs. Við vonumst til að Stjórnarformaðurinn mæti tímalega svo
þetta gangi hratt fyrir sig. Auðvitað munum við bjóða honum að koma með
mótrök gegn áminningunni.

Heimasíðan okkar fjallar m.a. um þetta o.fl.: www.hivenet.is/bus


SKRIFLEG ÁMINNING

4. júní 2008.

Herra Ármann Kr. Ólafsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi,
Alþingismaður og Stjórnarformaður Strætó bs.

Framkvæmdastjóri Strætó tók til starfa fyrir rúmlega ári síðan. Fyrir 6
mánuðum ákvað hann að eiga ekki (eðlileg) samskipti við, þá nýkjörna
fulltrúa starfsmanna, gegn öllum samningum og lögum. "Afar sérstakar"
stjórnunaraðferðir eru notaðar til að árétta "alvarleika málsins" svo ekki
verði meira sagt.

Í 6 mánuði hefur Framkvæmdastjóri notið fulltingis og verndar þinnar í
þessari framkomu. Til að geta notið almennra mannréttinda höfum við
ítrekað reynt að fá fundi með þér til að ræða afstöðu og framkomu
Framkvæmdastjóra í garð starfsmanna. Framkvæmdastjóri segist ekki ætla að
ræða við okkur, ekki veita frí til trúnaðarmannastarfa og þar með koma í
veg fyrir að við getum t.d. undirbúið samningagerð eða átt aðkomu að ýmsum
málum og jafnvel samningsbrotum fyrirtækisins í garð starfsmanna.

Þú hefur lýst yfir stuðningi við vinnubrögð hans og að ólögmætur
gjörningur þ.e. uppsögn 1. fulltrúa/trúnaðarmanns væri með þínu samþykki
og vitund sem ásamt undantöldu stríðir gegn öllum stjórnsýslulögum.

Þessi framkoma og stjórnunarstíll er með því alvarlegra sem sést hefur á
vinnumarkaði sl. ár. Allavega fjögur mál eru fyrirsjáanlega á leið fyrir
dómstóla fyrir utan önnur stjórnsýslubrot sem verður vísað til
lögformlegra aðila.
Það er nokkuð ljóst að þú býður ekki upp á, né Framkvæmdastjóri Strætó, að ræða málin að hætti siðaðra manna.

Ágæti Ármann Kr. Ólafsson: Sem skattgreiðendur og þar með atvinnurekendur þínir, bæði í bæjarstjórn Kópavogs og á Alþingi viljum við hér með veita þér skriflega áminningu fyrir að huga ekki að því til hvers þú varst kjörinn og hvert hlutverk þitt er. Því miður getum við ekki kosið þig til
starfa fyrir okkur næsta kjörtímabil. Þú getur unnið af þér áminninguna
með því að taka upp eðlileg vinnubrögð.

Kjósendur og skattgreiðendur:

Trúnaðarmenn Strætó

Jóhannes Gunnarsson
Ingunn Guðnadóttir
Guðmundur I. Pétursson


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert