Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í gær að veita fyrirtækinu Glacier World ehf. vilyrði fyrir 1,5 hektara lóð í Hellnahrauni. Áður hafði bærinn samþykkt viljayfirlýsingu um vatnsviðskipti við fyrirtækið. Að sögn Lúðvíks Geirssonar, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, stendur til að reist verði á lóðinni átöppunarverksmiðja með um fimmtíu manna starfsliði. Hann á ekki von á öðru en að samningar náist á næstu vikum.
Fyrirtækið Glacier World var stofnað af fjárfestum og framkvæmdaraðilum frá Sádí-Arabíu. Um nokkurn tíma hafa stjórnendur þess skoðað möguleika á útflutningi íslensks vatns og hófu þeir að kynna sér aðstæður í Hafnarfirði í fyrrahaust. „Síðan tóku þeir þá ákvörðun að láta reyna á samninga við bæinn og koma hér upp starfsemi,“ segir Lúðvík. „Ef allt gengur eftir verða þeir hér með átöppunarverksmiðju og einnig töluverðan vatnsútflutning, bæði með gámum og tankskipum. Hugmyndin er að þeir leiði vatn frá vatnsbólum Hafnarfjarðar í pípu að verksmiðjunni og flytji síðan vatn út frá höfninni.“
Lúðvík segir að samningaviðræður standi enn yfir en frá formlegri lóðaveitingu verður gengið ef og þegar endanlegur samningur um vatnskaup liggur fyrir. „Það mun skýrast á næstu vikum hvernig það endar. En við væntum þess að ná samningum.“
Tekjur af starfseminni fyrir Hafnarfjörð verða fyrst og fremst afleiddar, að sögn Lúðvík, s.s. þar sem um útflutning verður að ræða frá höfninni og eins að í verksmiðjunni munu starfa um fimmtíu manns.