Nancy Lammerding Ruwe er látin í Washingtonborg í Bandaríkjunum, 76 ára að aldri. Nancy var eiginkona Nicholas Ruwe, sem var sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi þegar leiðtogafundur Reagans og Gorbatsjofs var haldinn í Reykjavík árið 1986.
Nancy Ruwe starfaði í Hvíta húsinu á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar á meðan Richard M. Nixon og Gerard Ford voru Bandaríkjaforsetar.
Nicolas Ruwe var sendiherra hér á landi á árunum 1985-1989 en hann var mikill vinur Ronalds Reagans, þáverandi forseta. Ruwe lék lykilhlutverk í að fá leiðtogafundinn 1986 til landsins.
Nancy Ruwe kom hingað til lands á tíu ára afmæli leiðtogafundarins og aftur árið 1999 en þá afhjúpaði hún minningaskjöld við Höfða um eiginmann sinn, sem lést árið 1990. Við það tækifæri fjallaði hún um leiðtogafundinn og sagðist muna það eins og gerst hefði í gær, þegar Nicholas fylgdi Reagan til sendiherrabústaðarins eftir margra klukkustunda erfiðar samningaviðræður með Gorbatsjov. Hún sagði síðan, samkvæmt frásögn Morgunblaðsins:
„Eins og öllum er kunnugt er Reagan ljúfur og hlýr að eðlisfari, en þetta kvöld var hann bálreiður. Ég man hvað hann sagði við eiginmann minn: „Trúirðu þessu, Nick? Hér var ég, reiðubúinn til að undirrita mikilvægustu afvopnunarsamninga veraldarsögunnar. Ég var með pennann í hendinni, en Gorbatsjov leit á mig og sagði: „Auðvitað hættirðu við geimvarnaráætlunina." Ég sagði við hann: „Það kom aldrei til greina." Ég setti pennann niður, stóð upp og gekk á dyr.""
Nancy sagði að þetta kvöld hefði markað tímamót í veraldarsögunni. „Sovétmenn höfðu lagt undir og tapað. Með því að neita að hætta við geimvarnaráætlunina sá Ronald Reagan í gegnum ráðabrugg þeirra og stóð fast við sitt. Og það gekk upp. Málstaður friðar sigraði og seinna var komist að samkomulagi. Það samkomulag hefur haldið og gert heiminn öruggari en áður."