Eitt hlýjasta sumar í höfuðborginni

Reykvíkingar gátu stundað sjóböð í hlýindunum í sumar.
Reykvíkingar gátu stundað sjóböð í hlýindunum í sumar.

Meðalhiti mánaðanna júní til ágúst hér á landi var 11,5 stig og er þessi hluti sumarsins sá 4. til 5. hlýjasti frá upphafi mælinga í Reykjavík. Hlýrri voru sumrin 2003, 1880 og 1939 og jafnhlýtt var 2004 eins og nú. Allmörg sumur hafa verið hlýrri á Akureyri.

Fram kemur á vef Veðurstofunnar, að sérlega sólríkt hafi verið í júní og sólskinsstundir í júlí og ágúst í ríflegu meðallagi. Sumarið sé fram til þessa það sólríkasta í Reykjavík frá 1929 (673 stundir nú), en ámóta sólríkt var þó 1931, 1939 og 1952. Sólríkara var 1927, 1928 (768 stundir) og 1929. 

Á Akureyri er sumarið einnig hið fjórða sólríkasta (580 stundir). Talsvert fleiri sólskinsstundir mældust á Akureyri á þessum tíma 1971 (630) og árin 2000 og 2004 voru einnig fleiri sólskinsstundir á Akureyri en nú.

Sumarið byrjaði óvenjusnemma í ár með mjög hlýjum maímánuði. Meðalhitinn í Reykjavík á þessu tímabili er 10,8 stig. Þetta er jafnhátt og á sama tíma sumarið 1939, lítillega kaldara var 2003 og munur á sama tímabili 1933 og 1941 er ekki marktækur.

Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var sjónarmun hlýrra í maí til ágúst 1939 og jafnhlýtt 1933 og nú. Í Stykkishólmi var 0,1 stigi hlýrra 1933 og 1939 heldur en nú. Í Bolungarvík er tímabilið það áttunda hlýjasta á síðustu 100 árum, hlýrra varð síðast 2003 og 2004. Maí til ágúst varð hlýjast í Bolungarvík 1933.

Á Akureyri eru maí til ágúst í 6. til 7. sæti hvað hlýindi varðar (10,25 stig). Mælt hefur verið frá 1882. Hlýrra var 1933 (11,58 stig), 1939 (10,81 stig), 1947, 1984 og 1889 og jafnhlýtt og nú var 1991. Inn til landsins á Austurlandi skera hlýindin sig ekki eins úr. Tímabilið maí til ágúst nú er þannig í 10. sæti á Egilsstöðum frá 1950 að telja og í því 15. frá 1937 á Hallormsstað. Á Dalatanga er það hins vegar í 6. sæti frá 1938. Nokkru hlýrra var þar 1939, 1947 og 1984. Á Hveravöllum var hlýrra 2003 og 2004 en nú.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert