Efni sem notað verður til að reisa verksmiðjuhús Becromal í Krossanes verður flutt landleiðina norður í land. Fram kemur á vefnum vikudegi.is, að þegar sé eitthvað af efninu komið til Akureyrar og annað er væntanlegt. Efnið fyllir alls 60 gáma, 40 fet að stærð. Reynt var að fá efnið flutt norður með skipi en það tókst ekki.
Becromal Iceland mun reka verksmiðjuna en annað félag, Becromal Properties, sá um að flytja efnið frá Reykjavík þar sem það kom að landi og til Akureyrar. Samið var við Flytjanda um flutning þess. Gauti Hallsson hjá Becromal Iceland segir við vikudag.is, að ekki hafi gengið upp að fá efnið í húsið sent með skipi norður, en ýmislegt hafi þó verið reynt í þeim efnum.
Sjálfum finnst honum fáránlegt að setja efnið upp á 60
gámaflutningabíla og aka því norður með tilheyrandi kostnaði.
Áætla menn að kostnaður við hvern slíkan bíl á leiðinni milli
Reykjavíkur og Akureyrar nemi á bilinu 100 til 140 þúsund
krónur.