„Þetta er algerlega óviðunandi niðurstaða,“ sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, um niðurstöðu nýrrar launakönnunar SFR. Hún sýnir að kynbundinn launamunur ríkisstarfsmanna hefur aukist um 3% milli 2007 og 2008.
Ingibjörg sagði ljóst að taka þyrfti á þessu enda skýrt kveðið á um það í stjórnarsáttmálanum. Í honum segir m.a. að gerð verði áætlun um að minnka óútskýrðan launamun kynjanna hjá ríkinu um helming.
„Það gerist greinilega ekki bara í gegnum kjarasamningana heldur verður að skoða ýmsar aðrar leiðir til að takast á við það,“ sagði Ingibjörg. Ein leið er t.d. að lyfta hefðbundnum kvennastörfum í launum og önnur að takast á við röðun fólks í launaflokka hjá stofnunum og ríkisfyrirtækjum. Ingibjörg minnti á að nú störfuðu þrjár nefndir á vegum félagsmálaráðuneytisins sem benda ættu á leiðir til að laga launamuninn.