Svo virðist sem andanefjurnar, sem hafa haldið sig í Pollinum við Akureyri, síðustu vikur séu allar á bak og burt. Rannsóknarbátur Hafrannsóknarstofnunar á Akureyri, Einar Í Nesi, var á sunnudaginn utarlega í Eyjafirði og sá þá skipstjórinn, Tryggvi Sveinsson, fimm andarnefjur á leið út fjörðinn. „Þetta er voru nánast örugglega vinir okkar af Pollinum,“ segir Hreiðar Þór Valtýsson lektor við Háskólann á Akureyri og útibússtjóri Hafrannsóknarstofnunar í höfuðstað Norðurlands.
Hreiðar segir þó að kannski megi segja að ævintýrinu sé ekki alveg lokið þar sem tilgangur leiðangursins var að merkja hrefnur með gerfihnattamekjum, tækifærið var því notað til að koma einu slíku merki í andarnefju. Ef þetta merki virkar þá verður vonandi hægt að fylgjast með ferðum þeirra áfram, segir Hreiðar. „Mér er ekki kunnugt um að andanefjur hafi verið merktar með þessum hætti áður og er þetta því mjög áhugavert,“ segir hann.
Enn er beðið eftir niðurstöðum rannsókna úr sýnum sem voru tekin úr andanefjunni sem drapst og rak á land við Nes í Höfðahverfi.
Ekkert hefur frést meira af hnúfubökunum sem komu inn á Pollinn. „Ég hef orðið vitni af því tvisvar á síðustu þremur árum að hnúfubakar hafa komið inn á Poll, en í öllum tilfellum hafa þeir stoppað mjög stutt við,“ segir Hreiðar Þór.
„Það eru þó ágætar líkur á því að fleiri sjávarspendýr heimssæki Pollinn í vetur því þá fara heimsskautaselir oft að láta sjá sig þar. Þær selategundir sem ég veit til að hafi látið sjá sig á Pollinum síðustu vetur eru rostungur, kampselur, blöðruselur og hringanóri. Vonandi halda ísbirnirnir sig bara fjarri!“ segir Hreiðar.