Sendinefnd breska fjármálaráðuneytisins og Englandsbanka ræðir við íslenska embættismenn og bankamenn í Reykjavík í dag til að reyna að vernda innistæður Breta í íslenskum útrásarbönkum. Breskir fjölmiðlar segja að mjög mikið sé í húfi fyrir Breta því hætta sé á að mörg góðgerðasamtök, sjúkrahús, háskólar og sveitarfélög tapi miklu fé.
Breska dagblaðið The Times segir að ef allt fari á versta veg kunni bresk góðgerðafélög að tapa alls milljarði sterlingspunda á falli íslensku bankanna. Breska ríkisútvarpið sagði að krabbameinssjúkrahús í Manchester kynni að tapa 7,5 milljónum punda, þar af 6,5 milljónum af gjafafé frá almenningi og fyrirtækjum. The Daily Telegraph segir að nokkrir háskólar hafi átt innistæður í íslenskum útrásarbönkum og tap þeirra gæti numið hundruðum milljóna punda. Þá hafi kattaverndarfélag átt 11,2 milljóna punda innistæðu í einum bankanna.
Breska ríkisútvarpið segir að alls nemi innistæður breskra sveitarfélaga rúmum 840 milljónum punda.
Í bresku sendinefndinni eru lögfræðingar frá fjármálaráðuneytinu, auk fulltrúa Englandsbanka og breska fjármálaráðuneytisins.