Ríkisstjórnin verður að ganga á undan með góðu fordæmi, sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag og lagði áherslu á að flýta þyrfti vinnu við eftirlaunafrumvarp þar sem kjör æðstu ríkisstarfsmanna yrðu færð til jafns við kjör annarra.
Ingibjörg sagði Ísland verða að læra af reynslunni og hafa þann lærdóm að leiðarljósi við uppbyggingu nýs fjármálakerfis. Óhófleg launakjör þyrftu að heyra sögunni til jafnt sem himinháar starfsloka- og bónusgreiðslur.
Ingibjörg lagði áherslu á aðgerðir til að bæta hag heimilanna og að sjónum yrði beint að umhverfi fyrirtækjanna í landinu. Hvað Alþjóðagjaldeyrissjóðinn varðar lagði Ingibjörg áherslu á að íslensk stjórnvöld hefðu sett fram áætlun í samningaviðræðunum og sjóðurinn fjallað um mögulega lánveitingu á þeim forsendum. Stjórnvöld gætu því ekki vísað ábyrgðinni á stýrivaxtahækkun á IMF.