Vilja fá framlengingu á frítekjumarki öryrkja

Sjálfsbjörg, landsamband fatlaðra, leggur áherslu á að framlengt verði frítekjumark atvinnutekna gagnvart lífeyristryggingum öryrkja, tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar, frá 1. janúar nk. þegar núverandi bráðabirgðaákvæði í lögum falla niður um áramótin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Ragnar Gunnar Þórhallsson formaður Sjálfsbjargar segir þetta algert lykilatriði fyrir fatlaða, ekki síst nú þegar skóinn kreppi í þjóðfélaginu, vegna þeirra efnahagsþrenginga sem Íslendingar búa við.

„ Undanfarin misseri hafa verið gerðar breytingar á lífeyristryggingum almannatrygginga í þá veru að hækka frítekjumörk vegna atvinnutekna lífeyrisþega og skapa þeim þannig tækifæri og aukinn hvata til að auka ráðstöfunartekjur sína með vinnu. Það er mjög mikilvægt að halda áfram á þessari braut, ekki síst miðað við núverandi aðstæður í þjóðfélaginu. Enda er það mikilvægur hluti mannréttinda fatlaðra og stefnu Sjálfsbjargar að auka samfélagsleg réttindi fatlaðra og þátttöku þeirra sem skilar sér beint til samfélagsins, öllum til hagsbóta,” að því er segir í tilkynningu.

Sjálfsbjörg óskar því eftir því við félags- og tryggingamálaráðuneytið og ríkisstjórn Íslands að gerðar verði þegar breytingar á almannatryggingalögum þannig að 100.000.- króna frítekjumarkið gildi áfram eftir næstu áramót, nema aðrar breytingar verði gerðar á örorkumati og almannatryggingum sem tryggi a.m.k. ígildi þessa frítekjumarks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert