Krónan magnaðist mikið upp áður en menn áttuðu sig á því að von væri á reiðarslagi utan frá, segir Bjarni Bragi Jónsson hagfræðingur.
„Það var nánast sama hvað menn gerðu, menn gátu ekki gert neitt við því. Hagkerfið opnaði sig í trausti þess að við værum að reyna á verðbólgumarkmið og vaxtastjórn, menn fengu sjálfstraust út úr því, og gáðu varla að sér. Og svo er eins og menn hafi treyst hver á annan að passa upp á innstæður í öðrum löndum; það var von að við héldum að eftirlitið með því félli undir bankaeftirlit hlutaðeigandi ríkja.“
Hvað varðar að setja krónuna á flot segir hann ekkert annað að gera en þreifa sig áfram og gæta þess að setja sig ekki í neyðarsnöru. „Ef við setjum okkur ákveðin markmið, og reynum að halda genginu við það, þá vekur það illviðráðanlegar hreyfingar í spákaupmennsku. Þá geta menn séð veilur í því, hvort við ráðum við það, búið til skortstöður og svo framvegis.“
Hann staldrar við.
„Yfirleitt er það þannig, að peningaheimurinn ytra snýst gegn hvatvísum brottrekstri seðlabankastjóra. Hvort seðlabankastjóri ráði einn eða einhver stakur spekingur er hálfgert rugl af eftirgreindum ástæðum, því seðlabankavinna er alls staðar teymisvinna, hvar sem er í heiminum. Jafnvel þar sem aðeins einn seðlabankastjóri er skipaður er hann fyrst og fremst fundarstjóri á báða bóga og leiðir menn síðan saman. Hann hefur kannski úrslitavald í stóru málunum, en það nær ekki mjög langt, ef það er búið að fara í gegnum sigti í ráðum innan bankans.“