Allar líkur eru á að íslenska þjóðin sé að lenda í verulegum efnahagserfiðleikum, sem hún kemst kannski út úr á árunum 2025-2027. Útlit er fyrir viðvarandi halla á fjárlögum og að 50-60 milljarða þurfi á hverju ári eftir árið 2012 til að borga niður vexti og skuldir. Það verður tekist á við fátt annað en að halda sjó.
Þetta hafði Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, eftir ónafngreindum sérfræðingum, sem komu á fund fjárlaganefndar Alþingis í dag.
Guðjón sagði frá þessu í þingræðu um vantrauststillögu á ríkisstjórnina á Alþingi í dag. Hann sagði að útlit væri fyrir að fjárlög næsta árs verði afgreidd með 150-160 milljarða króna halla og sérfræðingarnir sæju ekkert annað framundan en skattahækkanir. Líklegt væri, að tekjur af fjármagnstekjuskatti yrðu afar litlar ef nokkrar á næsta ári og tekjur af tekjuskatti fyrirtækja yrði sáralítill, m.a. vegna uppsafnaðs taps.
„Og hverjir eru þá eftir? Launþegar, fólkið í landinu, eftirlaunaþegar. Það eru allar horfur á að hækka þurfi skatta til að mæta erfiðleikunum til að takast á við þá erfiðleika, sem við erum að lenda í," sagði Guðjón.