Byggingarnefnd framtíðarhúsnæðis Grunnskólans á Ísafirði hefur farið fram á einnar milljón króna afslátt á nýbyggingu skólans vegna útlitsgalla í múrhúð utanhúss. Fór nefndin í skoðunarferð að nýbyggingunni fyrir stuttu og voru nefndarmenn sammála um að fara fram á afslátt á verkinu. Verkið var unnið af Vestfirskum verktökum á Ísafirði.
Hefur Bæjarins besta eftir Svanlaug Guðnadóttir, einum nefndarmanna, að múrhúðin sé gölluð á tveimur hliðum hússins - hliðinni sem snýr að porti skólans og hliðinni sem snýr að leikfangaversluninni Dótakassanum. „Það sér ekki mikið á þessum hliðum en þetta er nýtt hús og er það krafa nefndarmanna að húsið líti óaðfinnanleg út,“ segir Svanlaug. Ekki sé búið að samþykkja þessa kröfu en hún sé lögð fram í samráði við verktakana. „Þeir sáu einnig þennan galla og leitum við að lausn í málinu. Við búumst við því að húsið verði málað aftur.“
Áætlaður kostnaður við nýbyggingu Grunnskólans á Ísafirði er 316 milljónir króna. Í fjárhagsáætlun var hins vegar gert ráð fyrir að framkvæmdirnar myndu kosta 273 milljónir. Kemur hækkuninni til vegna hækkunar á vísitölu, sem og hækkun á verði búnaðar, einkum kaupum á húsgögnum.