Hæstiréttur hefur staðfest fimm mánaða fangelsisdóm yfir tæplega fimmtugum karlmanni vegna innbrots og þjófnaðar. Maðurinn hefur síðustu tvo áratugi hlotið fjölmarga refisdóma fyrir margvísleg hegningarlagabrot.
Maðurinn braust um hábjartan dag, í félagi við annan mann, inn í hús í Höfnum. Mennirnir stálu áfengi, tölvum, myndavél, skartgripum og fleiru. Heildarverðmæti þýfisins var tæpar 400 þúsund krónur.
Mennirnir voru handteknir samdægurs og fannst á þeim hluti þýfisins. Þá pössuðu skóför á vettvangi við skóför mannanna. Mennirnir neituðu sök en könnuðust við að hafa farið inn í umrætt hús.
Annar mannanna lést áður en héraðsdómur kvað upp sinn dóm.