Icelandair þarf ekki að greiða áskrift að DV

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Icelandair af kröfu DV útgáfufélags um að flugfélagið greiði fyrir áskrift að 500 eintökum af DV í þrjá mánuði á þessu ári, alls rúmar 11 milljónir króna. Taldi dómurinn ósannað að gerður hefði verið samningur milli fyrirtækjanna um áskriftina.

Krafa útgáfufélagsins byggðist á því, að munnlegur samningur hefði komist á um kaupin og einnig því, að það hefði skapað Icelandair greiðsluskyldu að fyrirtækið tók við blöðunum. 

Dómarinn var hins vegar ekki á sama máli og sagði að engin sönnun lægi fyrir því að samningur hefði komist á. Útgáfufélagið hefði ekki leitt vitni til stuðnings staðhæfingu sinni, t.d. þann er gerði hinn ætlaða samning, né á annan hátt rennt stoðum undir hann.

Þá segir í dómnum, að útgáfufélagið haldi því fram, að Icelandair hafi óskað eftir þjónustunni. Segist dómurinn telja með ólíkindum, að hafi svo verið, hafi ekki verið gengið frá skriflegum samningi. Sé þá litið til þess fjölda eintaka sem afhenda átti á degi hverjum, þ.e. 500 eintök, og einnig að endurgjaldið fyrir slíkt magn skyldi vera lausasöluverð með afslætti, en ekki miðað við áskriftarverð. Hafnar dómurinn því að til staðar sé venja fyrir munnlegum samningum að áskrift að fjölmiðlum, þegar um slíkt magn sé að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka