Kringlan ekki skaðabótaskyld

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað rekstrarfélag Kringlunnar af kröfu konu sem taldi Kringluna skaðabótaskylda vegna slyss sem hún varð fyrir við bílastæði kringlunnar. Konan datt um lága keðju sem sett hafði verið upp til að varna umferð á tilteknum stað á bílastæðinu.

Slysið varð á Þorláksmessu 2004. Konan ætlað að stytta sér leið og hnaut þá um keðjuna á bílastæðinu. Keðjan hafði verið sett upp þar sem tvær akbrautir mætast á bílastæðinu, til að hindra að ökumenn styttu sér leið.

Konan steyptist fram fyrir sig og lenti harkalega á malbikinu. Hún kveðst hafa orðið fyrir varanlegum afleiðingum vegna slyssins, meðal annars áverka á olnboga og óþæginda í öxl. Lögmaður konunnar krafðist viðurkenningar Kringlunnar á skaðabótaskyldu en því var hafnað.

Í dómi héraðsdóms segir að svæðið þar sem slysið varð, sé augljóslega ekki ætlað gangandi vegfarendum. Telja verði að konan hafi tekið áhættu með því að ganga yfir að bifreiðastæðinu á þessum stað. Jafnframt verði að telja að konan hefði átt að sjá stólpana og keðjuna sem strengd var á milli þeirra, hefði hún sýnt af sér eðlilega aðgæslu. Þá segir að fram hafi komið að konan sé sjóndöpur, sem hefði átt að kalla á enn meiri aðgæslu af hennar hálfu.

Dómurinn telur ekki hafa verið sýnt fram á að að slysið verði rakið til saknæmrar háttsemi rekstrarfélags Kringlunnar eða starfsmanna þess. Telst slysið verða rakið til þess að konan hafi ekki, í umrætt sinn, sýnt nægilega aðgæslu.

Því beri að sýkna rekstrarfélag Kringlunnar.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka