Afföll vegna sýkingar samsvara heilli vertíð

Útlit er fyrir að afföll utan veiða í síldarstofninum verði að minnsta kosti þrisvar til fjórum sinnum meiri á þessari vertíð en venjulega, vegna sýkingar í síldinni. Geta þau samsvarað afla á hálfri annarri síldarvertíð. Enn er unnið að mælingum á stofnstærð og mati á afföllum vegna sýkingarinnar.

Þrjú skip á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar verða brátt við síldarrannsóknir því Árni Friðriksson er að bætast við í blálok árlegs rannsóknarleiðangurs allt í kringum landið. Skipin athuga einnig hvað sýkingin í síldinni er útbreidd en það er gert í samvinnu við aðrar stofnanir, sjómenn og fiskvinnslu. Athuguð eru sýni allt frá upphafi vertíðar til að skoða þróun sýkingarinnar.

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar, segir þetta umfangsmikla rannsókn þar sem verið sé að meta stofnstærð og sýkingarhlutfall á mismunandi svæðum en gerir ráð fyrir að fyrstu niðurstöður liggi fyrir í næstu viku. Þó hefur komið í ljós að 30-40% aflans á aðalveiðisvæði síldarinnar virðast sýkt og hlutfallið er jafnvel mun hærra á öðrum svæðum þar sem meira er af smásíld, t.d. norðvestan við Vestmannaeyjar og út af Reykjanesi.

Hafró mat hrygningarstofn íslensku sumargotssíldarinnar 650 þúsund tonn fyrir þessa vertíð og sjávarútvegsráðherra úthlutaði 150 þúsund tonna kvóta. Ef 30-40% hrygningarstofnsins drepast vegna sýkingarinnar samsvarar það 200-250 þúsund tonnum af síld eða afla allt að hálfrar annarrar síldarvertíðar.

Þetta eru þreföld eða fjórföld þau afföll sem Hafró gerði ráð fyrir við sína ráðgjöf. Jóhann Sigurjónsson segir of snemmt að segja til um hvort grípa þurfi til sérstakra ráðstafana vegna þessa, til dæmis hvort lagt verði til að veiðar verði stöðvaðar á vertíðinni nú.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert